Hamarsvöllur staðarreglur 2024

Njóttu þess að spila golf í fremstu röð í Borgarnesi!

1. Vallarmörk

  • Völlurinn afmarkast af girðingu þar sem hún er, annars af hvítum hælum.

2. Eftirfarandi hlutir eru óhreyfanlegar hindranir (regla 16.1)

  • Jarðfastir steinar á snöggslegnu svæði
  • Fjarlægðarhælar, vökvunarkerfi, brautarmerkingar, ruslatunnur, bekkir og auglýsingaskilti
  • Kókdósin (gamli súrheysturninn) á 4. braut ásamt steinum og ljóskösturum í kring.

3. ​Færslur á braut

Þegar bolti liggur innan almenna svæðisins og gras slegið í brautarhæð eða neðar, má taka vítislausa lausn einu sinni áður en högg er slegið, með því að leggja upphaflega boltann eða annan bolta innan þessa lausnarsvæðis og leika honum þaðan:

  • Viðmiðunarstaður: Staðurinn þar sem boltinn liggur (sjá reglu 14.1)
  • Stærð lausnarsvæðis: Ein kylfulengd frá viðmiðunarstað.
  • Takmörk á staðsetningu lausnarsvæðis:
    • Það má ekki vera nær holunni en viðmiðunarstaðurinn
    • Það verður að vera á almenna svæðinu.

4. Færslur á flöt

Þegar bolti liggur á flöt, má taka vítislausa lausn einu sinni áður en högg er slegið, með því að leggja upphaflega boltann eða annan bolta innan þessa lausnarsvæðis og leika honum þaðan:

  • Viðmiðunarstaður: Staðurinn þar sem boltinn liggur (sjá reglu 14.1)
  • Stærð lausnarsvæðis: Einn púttershaus frá viðmiðunarstað.
  • Takmörk á staðsetningu lausnarsvæðis:
    • Það má ekki vera nær holunni en viðmiðunarstaðurinn
    • Það verður að vera á flötinni.

5. Vítasvæði

Vítasvæði vallarins eru merkt með rauðum stikum eða spreyi og skulu lausnir teknar samkvæmt reglu 17.

Sé vítasvæði merkt aðeins öðru megin, merkir það að mörk þess framlengjast óendanlega.

Svæðið innan rauða vítasvæðisins sem skilgreint er með rauðum hælum með hvítum toppi hægra megin við 13. braut og vinstra megin við 17. braut er bannreitur. Þegar bolti er á bannreitnum innan vítasvæðisins má ekki leika boltanum þar sem hann liggur og taka verður lausn frá truflun vegna bannreitsins samkvæmt reglu 17.1d.“

6. Grund í aðgerð

  • Blómabeð ofan við 6. flöt eru grund í aðgerð og er leikur þar bannaður og eru beðin merkt með einum bláum hæl með hvítum toppi.
  • Ef bolti er innan grundar í aðgerð á framkvæmdarsvæðinu á 18. braut, þar á meðal þegar það er vitað eða nánast öruggt að bolti sem ekki hefur fundist stöðvaðist innan grundar í aðgerð, verður leikmaðurinn:
    • að taka vítalausa lausn með því að láta upphaflega boltann eða annan bolta falla innan fallreitsins handan framkvæmdarsvæðisins. Fallreiturinn er lausnarsvæði samkvæmt reglu 14.3.

7. Varabolti vegna bolta innan vítasvæðis á 13. og 16. Braut

„Ef leikmaður veit ekki hvort bolti hans er innan vítasvæðis vinstra megin á 13. og 16. braut, má leikmaðurinn leika varabolta samkvæmt reglu 18.3 sem er breytt þannig:

Við að leika varaboltanum má leikmaðurinn nota fjarlægðarlausn (sjá reglu 17.1d(1)), aftur-á-línu lausn (sjá reglu 17.1d(2)) eða hliðar lausn (sjá reglu 17.1d(3)).

Eftir að leikmaðurinn hefur leikið varabolta samkvæmt þessari reglu má hann ekki nota aðra möguleika samkvæmt reglu 17.1 í tengslum við upphaflega boltann. Við að ákvarða hvenær varaboltinn verður bolti leikmannsins í leik eða hvenær verður eða má hætta leik með honum eiga ákvæði reglna 18.3c(2) og 18.3c(3) við, nema að:

  • Þegar upphaflegi boltinn finnst innan vítasvæðis og innan þriggja mínútna leitartímans. Leikmaðurinn getur valið að:
    • Halda leik áfram með upphaflega boltanum þar sem hann liggur innan vítasvæðisins og þá má ekki leika varaboltanum. Öll högg með varaboltanum áður en leik með honum var hætt (þar á meðal slegin högg og vítahögg sem beinlínis hlutust af leik hans) gilda ekki, eða
    • Leika varaboltanum og þá má ekki leika upphaflega boltanum.
    • Þegar upphaflegi boltinn finnst ekki innan þriggja mínútna leitartímans eða það er vitað eða nánast öruggt að hann er innan vítasvæðis. Varaboltinn verður bolti leikmannsins, í leik.

Víti fyrir brot á staðarreglum: Almennt víti