Upphafið

Upphafið að þessu öllu má rekja til ársins 1971 er nokkrir áhugasamir menn komu saman til að huga að stofnun golfklúbbs. Sett var á laggirnar undirbúningsnefnd og var hennar fyrsta verk að kanna með land undir golfvöll. Nokkrir möguleikar voru skoðaðir. Helst var horft til túnanna á Hamri, en þau voru í eigu Borgarneshrepps.

Þegar stofnun GB var í undirbúningi voru öll tún og stór hluti engjanna nytjaðar af einstaklingum. Þegar eftir landinu var leitað mtti það nokkurri andstöðu þeirra sem nýttu landið sem ekki var óeðlilegt þar sem töluverðir hagsmunir voru í húfi. Það var svo í september 1972 að Borgarneshreppur sammþykkti að fyrirhugaður golfklúbbur fengi land undir golfvöll á Hamri. Gert var ráð fyrir að landið fengist til afnota í áföngum. Golfklúbbur Borgarness er síðan stofnaðu 21. Janúar 1973.

Sumarið 1973 eru fyrstu golfhöggin slegin á svonefndum norðurtúnum (núverandi æfingarsvæði). Fyrsta svæðið sem fékkst afhent til notkunar er þar sem 1., 2., og 3. Braut eru nú. Þar voru þrjár brautir teknar í notkun strax fyrsta sumarið.

Árið 1974 var völlurinn stækkaður í 6 hlur. Leiknar voru núverandi 1., 2., 3., og síðan 7. braut sem var í tveimur hlutum, fyrst par 4 að engjaveginum og síðan par 3 hola ofan úr hlíðinni niður á hólinn þar sem 7. flöt er nú. 6. brautin var leikin yfir eða út fyrir heimahólinn og inn á núverandi 9 flöt.

9 holu golfvöllur verður til

1974 var lögð fram tillaga að skipulagi 9 holu golfvallar að Hamri. Tillagan sem unnin var af Verkfræðistofu Sigurðar Toroddsen og var sú tillaga samþykkt á aðalfundi félagsins um haustið. Unnið var eftir þeirri tillögu í meginatriðum allt fram til ársins 1993 er skipulag 18 holu golfvallar var samþykkt.

Árið 1975 var undirritaður samningur við Borgarneshrepp til 25 ára um land undir 9 holu golfvöll. Um vorið fengust síðustu spildurnar afhentar og var 9 holu golfvöllur tekinn í notkun þá um sumarið. Völlurinn var í öllum aðalatriðum eins og hann er nú, nema að núverandi sjöunda braut var í tveimur hlutum. Ein akbraut var á svæðinu allt fram til ársins 1985 þegar 7. brautin var tekin í notkun sem par 5. Það kom sér vel að geta hvílt ákveðnar brautir meðan unnið var að endrbótum og uppbyggingu. Fyrst í stað var 6. brautin ekki notuð. Gengið var af 5. flöt þvert yfir á teig á núverandi 7. og hún leikin sem 6. braut. Leikið var út með klettunum á svokallað jónsmessugrín sem var í miklum halla. Menn stóðu þar oft langtímum saman og púttuðu upp hallann aftur og aftur. Á árunum 1977 og 1978 voru 9. og 1. flöt byggðar upp. Á þeim tíma var 1. brautin ekki notuð og var 2. brautin þá leikin sem par 5.

Á þessum fyrstu árum klúbbsins var unnið að ýmiskonar lagfæringum á vallarsvæðinu, framræslu, hreinsun skurða, teigar byggðir upp og glompur teknar. Þessi vinna var nær öll unnin í sjálfboðavinnu, menn útveguðu velar og tæki frá hinum og þessum aðilum og naut klúbburinn velvildar margra aðila sem ekkert tengdust klúbbnum. Þessi harðsnúni kjarni virkra félaga sem ekki var nema 10 – 15 menn vann öll ver, gróf skurði, sló völlinn, smalaði völlinn sem þurfti að gera reglulega því mikill ágangur sauðfjár var af nágrannasvæðunum. Mikið mæddi á þessum fáu félögum og var ekki óalgengt að golfmót dagsins hæfist með slætti á flötum fyrir hádegi og mótið leikið eftir hádegi. Frumherjarnir eins og við köllum þá gjarnar, þeir Gísli Kjartansson, Þórður Sigurðsson, Magnús Thorvalsson, Einar Jónsson, Albert Þorkelsson, Gunnar Kristjánsson og Sigurður Már Gestsson svo þeir helstu séu nefndir voru allt í öllu.

Árið 1978 fékk klúbburinn Hamarshúsið til afnota og var strax ráðist í umfangsmiklar breytingar á húsnæðinu. Húsið sem var í hörmulegu ástandi þurfti að innrétta uppá nýtt og beindist vinna félaga mikið að endurbótum á húsinu á þessum tíma. Með tilkomu hússins efldist félagastarfið innan klúbbsins verulega, félögum fjölgaði og öll starfsemin tók kipp.

Trjárækt hefst að Hamri

Þegar til baka er litið þá kemur árið 1980 upp í hugann. Þetta ár var ár trésins og félagar plöntuðu um 6000 trjáplöntum í vallarsvæðið. Sló klúbburinn öðrum félagasamtökum við í þessum efnum og fékk klúbburinn því mun fleiri plöntur en ráð var fyrir gert þarsem önnur félög sinntu ekki verkefninu. Við gróðursetninguna féll mikið til af þökum sem nýttar voru til að byggja upp flatir og teiga. Á þessum tíma var Bragi Jónsson allt í öllu. Stýrði hann gróðursetningunni og fylgdi henni eftir næstu árin. Hann var síðan aðal driffjöður klúbbsins í vallarframkvæmdum allt fram undir 1990.

Á árunum sem á eftir fylgdu var unnið að fjölmörgum endurbótum á vallarsvæðinu, völlurinn lengdur með færslu teiga og tjarnir gerðar á 4. og 8. braut. Starfsmaður ráðinn við völlinn, ný brautarvél tekin í notkun og unnið átak í að koma svæðum vallarins í sláttutækt horf.

Árið 1982 var hafist handa við byggingu 7. brautar. Eins og áður er getið þá var stutt par 4 braut meðfram klettunum út undir engjaveginn. Handan hans og allt að hólnum þar sem 7. flötin er, tók við óræktarsvæði með miklu af stórgrýti, svæði sem fyrri tíma ábúendur að Hamri sáu sér ekki fært að brjóta til ræktunar. Efni í brautina var sótt í engjarnar þar sem nú er tjörnin á 7. braut, alls um 5000 m3. Á sama tíma var unnið að gerð eyjunnar, 5. flöt og var sömu aðferð beitt við efnisútvegun, þ.e. tekin tjörn til að afla efnis. Árið 1985 eru þessir síðustu áfangar 9 holu golfvallar teknir í notkun og völlurinn komin í það horf sem hann var allt til ársins 2001.

18 holu hugleiðintar

Þrátt fyrir að menn hafi verið að vinna að endurbótum á okkar góða 9 holu golfvelli, þá voru margir stórhuga menn innan klúbbsins sem vildu mikið meira, ekkert minna en 18 holur dugðu fyrir þessa menn. Það var því á árinu 1987 að stjórn klúbbsins sendi bæjarstjórn Borgarness bréf þarsem óskað var eftir að við endurskoðun skipulags væri gert ráð fyrir landi undir stækkun í 18 holur. Lagt var til að landið suður af núverandi vallarstæði og í átt að Grímúlfskeldu yrði tekið frá til þessara nota. Látið var að því liggja að stækkunin kæmi til framkvæmda um eða uppúr aldamótum. Bæjaryfirvöld tóku vel í erindið.

Árið 1992 var samið við Hannes Þorsteinsson golfvallarhönnuð um að gera tillögu að 18 holu golfvelli á umræddu svæði. Ári síðar var tillage hans lögð fyrir aðalfund klúbbsins og var hún samþykkt mótatkæðalaust. Sama ár voru klúbbnum afhent til afnota svokölluð Norðurtún undir æfingasvæði og var strax hafist handa með framræslu og endurræktun.

Árið 1988 var ákveðið að ráða framkvæmdarstjóra. Símon Páll Aðalsteinsson var ráðin til starfsins. Hann hafði áður verið formaður vallarnefndar. Með ráðningu Símonar má segja að orðið hafi þáttaskil í starfsemi klúbbsins. Fram að þessu hafði öll starfsemi klúbbsins, önnur en hirðing vallarins yfir sumarmánuðina, verið unnin í sjálfboðavinnu. Umsvif klúbbsins höfðu aukist ár frá ári og kominn tími á að létta af stjórnendum klúbbsins hinu daglega amstri.

Símon sem er mikill vinnuþjarkur, hefur ekki legið á liðið sínu og hafa stjórnendur átt fullt í fangi með að fylgja honum eftir með afgreiðslur og ákvarðanir.

Tækjafloti klúbbsins hefur allur verið endurnýjaður, búið era ð setja niður vökvunarkerfi í völlinn og fjölmargar lagfæringar hafa verið gerðar á vallarsvæðinu. Símon hefur gert átak í gróðursetningu trjáa í vallarsvæðið, nokkuð sem legið hafði niðri um árabil. Þar hefur klúbburinn notið velvildar RARIK sem hefur ákveðið að átak þeirra – Eitt tré fyrir hvern rafmagnsstaur í jörðu – fari að hluta í vallarsvæðið.

Fljótlega eftir að Símon hóf störf var farið að huga að stækkun vallarins í 18 holur. Nokkur tími fór í að losa fyrirhugað vallarsvæði, en eins og áður er nefnt voru einstakar spildur nýttar af tómstundarbændum. Er nú svo komið að klúbburinn ræður yfir öllu fyrirhuguðu vallarsvæði 18 holu golfvallar. Árið 2000 var ráðist í varanlegu uppbyggingu þriggja flata, þeirra 6., 7., og 8. og voru þær teknar í notkun haustið 2001.

Frá árinu 2000 hefur verið unnið að mótun sjö brauta sem verða sunnan núverandi vallarsvæðis. Mikið efni hefur fallið klúbbnum til vegna jarðvegsskipta við gatnagerð í bænum. Símon hefur verið á fullu á jarðýtu sem klúbburinn festi kaup á að taka við efninu og forma vallarsvæði. Búið era ð móta fjórar brautir og grófjafna þrjár.

Gerð hefur verið framkvæmdaáætlun um stækkun vallarins í 18 holur sem gerir ráð fyrir að 12 holur verði teknar í notkun á árinu 2005 og 18 holur 2012. Viðræður hafa átt sér stað við bæjaryfirvöld um fjárframlög til framkvæmdanna.