Jafnréttisáætlun

JAFNRÉTTISÁÆTLUN
GOLFKLÚBBS BORGARNESS

Jafnréttisáætlun Golfklúbbs Borganess sem PDFPDF

Styrkja skal jákvæð samskipti og gagnkvæma virðingu kynjanna í öllu íþróttastarfi með börnum og unglingum og hvetja þau til að rækta hæfileika sína og persónuþroska án hamlandi áhrifa hefðbundinna kynjaímynda.

Íþróttafélagið stuðlar að jöfnum tækifærum sinna félagsmanna og mismunar ekki vegna kynferðis, uppruna, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða, skoðana, litarháttar eða annarrar stöðu. Íþróttafélagið leggur áherslu á gagnkvæma virðingu í öllu starfi. Niðurlægjandi framkoma svo sem einelti, ofbeldi, kynferðisleg áreitni, illt umtal og ósæmilegar vígsluathafnir er ekki liðin innan félagsins.

Jafnréttisáætlun GB skal endurskoða á þriggja ára fresti, næst fyrir 1. mars 2025. Ábyrgð á jafnréttisáætlun GB er í höndum stjórnar GB ásamt íþrótta- og framkvæmdastjóra.

Iðkendur og þjálfarar

Til að stuðla að jafnrétti kynja og kynþátta leggur stjórn félagsins áherslu á að:

 • GB úthluti jafn mörgum tímum og gerir ekki greinamun við útdeilingu æfingatíma til æfinga til beggja kynja sem stunda æfingar innan sömu greinar og eru á sama aldri.
 • GB kappkosti að hafa vel menntaða og hæfa þjálfara hjá öllum hópum, drengjum og stúlkum. Bæði kynin njóta sömu eða sambærilegrar aðstöðu og aðbúnaðar við æfingar.
 • Samræmi sé í fjárveitingum innan félagsins eftir kynjum. Málefnaleg rök séu fyrir frávikum og skal það heyra til undantekninga.
 • Þjálfarar skulu njóta launa- og kjarajafnréttis, óháð kyni.
 • Þess sé gætt að umfjöllun um bæði kynin og íþróttagreinar sé sem jöfnust á vefsíðum félagsins og í öllu efni sem félagið lætur frá sér fara t.d. útgáfu og fréttatilkynningum. Á þetta bæði við um texta og myndefni.
 • Fyrirmyndir séu kynntar á ígrundaðan hátt og þess gætt að þær séu af báðum kynjum og endurspegli þær áherslur sem eru hjá félaginu.
 • Verðlaun til beggja kynja séu sambærileg. Félagið upplýsir kostunaraðila og aðra samstarfsaðila um þá stefnu félagsins að jafnræðis skuli gætt milli kynja og greina í verðlaunum.
 • Við úthlutun úr afrekssjóðum séu upphæðir/úthlutun eftir kynjum og aldri sem jöfnust hjá félaginu.

Stjórnir, ráð og nefndir

 • Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum félagsins sé þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og endurspegli hlutfall iðkenda í viðkomandi íþróttagrein. Konur skulu sérstaklega hvattar til að taka þátt í nefndum og gætt jafnræðis eins og kostur er hvað varðar nefndarformennsku.
 • Á opinberum samkomum, í fjölmiðlum og annars staðar sé þess gætt að bæði konur og karlar komi fram fyrir hönd félagsins.

Í GB starfar öflug kvennanefnd. Hlutverk kvennanefndar er að:

 • Fjalla um stefnu klúbbsins um leiðir til að efla kvennastarf og fjölga konum í klúbbnum.
 • Stuðla að samvinnu og samstöðu kvenna í klúbbnum og leitar leiða til að efla félagsanda meðal þeirra.
 • Skipuleggja æfingar, mót og aðra viðburði fyrir konur í samráði við þjónustu- og íþróttastjóra.
 • Í dag er hlutfall kvenna 37%. Markmið um hlutfall kvenna í klúbbnum til næstu 5 ára er að auka hlutfallið í 40% fyrir árslok 2027. Það er í samræmi við stefnu GSÍ til 2027 . Til að stuðla að árangri hvað þetta varðar skal halda áfram að bjóða upp á sérstök kynningarnámskeið fyrir konur og hvetja núverandi félagsmenn til að bjóða öðrum konum um að koma í heimsókn í GB og prófa íþróttina.

Stefna GB gegn einelti og kynbundnu ofbeldi

Einelti er samfélagslegt vandamál og þess vegna bera allir ábyrgð á því. Allir eru skyldugir til að bregðast við ef grunur vaknar um að einhver sé lagður í einelti, hvort sem er starfsmaður eða iðkandi. Einelti getur haft varanleg áhrif á þolanda og því ber að bregðast við sem fyrst. Einnig þarf að huga að gerandanum sem getur átt í miklum vandræðum sem leiða til þessarar hegðunar. Það er okkar skylda að aðstoða hann. Foreldrar verða að vera vakandi fyrir líðan barnsins síns og annarra barna sem í kringum þau eru. Ekkert er óviðkomandi ef einhverjum líður illa. Það er markmið GB að öllum líði vel innan félagsins.

Kynbundið ofbeldi, kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni.

 • Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk og iðkendur verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað eða við æfingar og leik.
 • Ef yfirmaður er kærður vegna ætlaðs kynbundins ofbeldis, ætlaðrar kynbundinnar áreitni eða ætlaðrar kynferðislegrar áreitni verður hann vanhæfur til að taka ákvarðanir í tengslum við starfsskilyrði kæranda á meðan meðferð málsins stendur yfir og skal þá næsti yfirmaður taka slíkar ákvarðanir.

Aðgerðaráætlun gegn einelti og kynbundnu ofbeldi

Öllum einstaklingum sem starfa hjá GB eða taka með öðrum hætti þátt í starfi þess sem iðkendur eða sjálfboðaliðar skal tryggt öruggt umhverfi og virðing. Í því felst að þurfa ekki að þola einelti eða annars konar ofbeldi. Ábyrgð á öryggi starfsfólks og þátttakenda í starfinu, aðgerðaráætlun og viðbrögð við málum er á ábyrgð stjórnar GB.

Skilgreining á einelti og kynbundnu ofbeldi

 • Einelti er síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
 • Kynbundin áreitni er hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
 • Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Í þessari aðgerðaráætlun er kynbundin áreitni og kynferðisleg áreitni nefnt einu nafni kynbundið ofbeldi.

Einelti

Birtingamyndir eineltis

Einelti er niðurlægjandi og særandi. Það getur bæði falist í því sem gert er og því sem látið er ógert.

Einelti getur tekið á sig ýmsar myndir t.d.:

 • Að starf, hæfni og verk starfsmanns/iðkanda í starfi/æfingum/leik eru lítilsvirt.
 • Að draga að ástæðulausu úr ábyrgð og verkefnum.
 • Að gefa ekki nauðsynlegar upplýsingar.
 • Særandi athugasemdir.
 • Rógur eða útilokun frá félagslegum samskiptum.
 • Árásir á starfsmann/þátttakanda í starfi eða gagnrýni á einkalíf hans.
 • Að skamma starfsmann/þátttakanda í starfi eða gera hann að athlægi.
 • Líkamlegar árásir eða hótanir um slíkt.
 • Fjandskapur eða þögn þegar spurt er eða fitjað upp á samtali.
 • Móðgandi símtöl.
 • Lítilsvirðandi texti í tölvupósti eða öðrum skriflegum sendingum.
 • Óþægileg stríðni.
 • Niðurlæging eða auðmýking, t.d. vegna aldurs, kynferðis eða þjóðernis.
 • Þöggun.

Ef þú verður fyrir einelti

 • Segðu einhverjum sem þú treystir frá reynslunni.
 • Skráðu niður atburðarrásina, tímasetningar, hugsanleg vitni, hvað var sagt og gert, hvernig þú brást við og hver upplifun þín var.
 • Hafðu samband yfirmann þinn, trúnaðarmann á staðnum eða formann þíns félags allt eftir því hvað þér líður best með og greindu frá því sem gerðist.
 • Gerðu grein fyrir því hvernig þú óskar eftir því að brugðist verði við.

Ef þú verður vitni að einelti

 • Ef þú treystir þér til; talaðu við gerandann eða gerendurna og láttu þá vita að þér finnist hegðun hans/þeirra vera einelti.
 • Segðu yfirmanni þínum, trúnaðarmanni á staðnum eða formanni þíns félags frá því.
 • Trúnaðarmanni sem fær upplýsingar um einelti ber að tilkynna það til yfirmanns síns eða stéttarfélagsins.
 • Trúnaðarmanni, yfirmanni á staðnum eða formanni ber að:
  • Tala einslega og í trúnaði við þann sem hefur orðið fyrir einelti, viðkomandi þarf að hafa fulla stjórn á því hvernig framhaldið verður.
  • Meta stöðuna í samráði við þolandann, hversu alvarlegt er eineltið, er ástæða til að kalla til ráðgjafa úr hópi samstarfsmanna/félaga sem viðkomandi treystir eða fagaðila sem sambandið hefur tryggt sér aðgang að.
  • Gera gerandanum/gerendunum grein fyrir því að um einelti sé að ræða og breyttrar hegðunar sé krafist.
  • Ef gerandi og þolandi sættast á það má kalla þau saman í ráðgjöf, helst með fagaðila og ákvarða hvernig samskiptum verður háttað í framhaldinu.
  • Til að koma í veg fyrir slúður og slæman starfsanda ber að bjóða upp á samtal við félaga sem eru í návígi við geranda og þolanda og setja þau inn í málin. Eins og aðrar aðgerðir ber að gera þetta í samráði við þolanda.

Viðbrögð við einelti iðkenda

 • Þegar grunur vaknar um að iðkandi sé lagður í einelti skal málinu vísað til þjálfara hópsins. Hann skal tilkynna íþróttastjóra og framkvæmdastjóra félagsins um málið.
 • Aðilar þessir skulu kynna sér málið betur með því að ræða við þjálfara og aðra þá sem eru að vinna með viðkomandi.
 • Ef um einelti er að ræða skal vinna málið í samvinnu við þjálfara og stjórnendur.
 • Gera skal forráðamönnum málsaðila grein fyrir stöðunni og óska eftir liðsinni þeirra.
 • Halda skal fund þar sem skipaður er ábyrgðarmaður þessa máls.
 • Vinna skal í samvinnu við alla aðila að framkvæmdaráætlun sem miðar að því að eineltið hætti. Ef þörf krefur skal leita eftir utanaðkomandi aðstoð, s.s. sálfræðings, fulltrúa regnbogabarna og annarra aðila.

Stefna og viðbrögð GB varðandi kynferðislegt áreiti eða ofbeldi

Hvað er kynferðislegt áreiti og ofbeldi?

Kynferðisleg áreitni/ofbeldi er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður.

 • Kynbundið ofbeldi getur birst sem óvelkomið áreiti, andlegt ofbeldi eða hreinlega líkamlegt ofbeldi. Upplifun þess sem fyrir ofbeldi verður getur verið mjög misjöfn og er hún mælikvarðinn á alvarleika ofbeldisins.
 • Kynbundið ofbeldi einkennist oft af misnotkun á valdi eða stöðu, andlegri kúgun og að sjálfsvirðingu sé misboðið, framkomu sem ætlað er að knýja einstaklinga til undirgefni og gera lítið úr þeim, endurtekinni áreitni og niðurlægingu fyrir þann sem fyrir áreitninni verður og hefur neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu hans.
 • Kynferðislegt ofbeldi eru kynferðislegar athafnir gagnvart einstaklingi sem ekki hefur gefið eða er ófær um að veita samþykki sitt.

Kynferðislegt ofbeldi getur falið í sér:

 • Káf og þukl innan sem utan klæða á kynfærum eða öðrum persónulegum stöðum
 • Munnmök
 • Samfarir eða tilraun til þeirra
 • Kynferðislegar myndatökur, áhorf á persónulega staði eða sýna/senda kynferðislegt efni
 • Kynferðislegur lögaldur er 15 ára. Það þýðir að fyrir þann aldur eru allar kynferðislegar athafnir, með eða án vilja barnsins, ólöglegar.
 • Dónalegum bröndurum og kynferðislegum athugasemdum í máli, myndum eða skriflegum athugasemdum.
 • Óviðeigandi spurningum um kynferðisleg málefni.
 • Snertingu sem ekki er óskað eftir.
 • Endurteknum beiðnum um kynferðislegt samband sem mæta áhugaleysi eða er hafnað.
 • Hótun um nauðgun.
 • Nauðgun.

Hvernig á íþróttafélagið að bregðast við upplýsingum um kynferðislegt áreiti eða ofbeldi?

Ef þú verður fyrir áreiti eða ofbeldi

 • Mótmæltu og gefðu skýr skilaboð um að hegðunin sé óæskileg.
 • Ef þú átt erfitt með að mótmæla hegðuninni munnlega þá má skrifa bréf. Skráðu niður hvað gerðist og hver upplifun þín var.
 • Skráðu niður atburðarrásina, tímasetningar, hugsanleg vitni, hvað var sagt og gert, hvernig þú brást við og hver upplifun þín var.
 • Ræddu málið við fólk sem þú treystir, mögulega hafa fleiri sömu reynslu eða hafa lent í svipuðum aðstæðum.
 • Hafðu samband við trúnaðarmann á vinnustað, yfirmann eða formann þíns félags allt eftir því hvað þér finnst best og greindu frá því sem gerðist.

          Trúnaðarmanni, yfirmanni á staðnum eða formanni ber að:

 • Tala einslega og í trúnaði við þann sem hefur orðið fyrir áreiti eða ofbeldi, viðkomandi þarf að hafa fulla stjórn á því hvernig framhaldið verður.
 • Afla gagna um málsatvik, smáskilaboð, tölvupóstar og vitnisburður annarra o.fl..
 • Meta stöðuna í samráði við þolandann, hversu alvarlegt var atvikið og er ástæða til að kalla til ráðgjafa úr stéttarfélaginu eða fagaðila.
 • Tala við gerandann og fá hans útgáfu af því sem gerðist.
 • Ef gerandi og þolandi sættast á það má kalla þau saman í ráðgjöf, helst með fagaðila og ákvarða hvernig samskiptum verður háttað í framhaldinu.
 • Til að koma í veg fyrir slúður og slæman starfsanda ber að bjóða upp á samtal við félaga sem eru í návígi við geranda og þolanda og setja þau inn í málin. Eins og aðrar aðgerðir ber að gera þetta í samráði við þolanda.
 • Ef um alvarlegt ofbeldi er að ræða ber að styðja þolandann í að leggja fram kæru.
 • Gera öllu starfsfólki/félögum grein fyrir því að kynbundið ofbeldi, áreitni og kynferðisleg áreitni er ekki liðin á vinnustaðnum/í félaginu. Gera öllu starfsfólki grein fyrir aðgerðaáætluninni og birta hana á vef félagsins.
 • Íþróttafélagið skal taka öllum tilkynningum alvarlega.
 • Ef þolandi er lögráða skal sterklega hvetja viðkomanda til að kæra málið til lögreglu. Hringja í 112.
 • Ef brotið hefur verið gegn ólögráða einstaklingi ber að tilkynna til Barnaverndar í síma 112.
 • Ef grunur vaknar um að forráðamaður/-menn eiga sjálfir aðild að kynferðislegu ofbeldi gegn barni skal hafa samband beint við lögreglu eða barnaverndaryfirvöld í síma 112.
 • Ef menn eru í vafa um hvernig eigi að bregðast við skal hafa samband við lögreglu, kynna málið og leita ráða í síma 112.
 • Þolendur eiga kost á að leita sér stuðnings og aðstoðar hjá;
 • Neyðarmóttaka fyrir þolendur kynferðisofbeldis, Landsspítali Fossvogi, slóð má finna hér.
  landspitali.is/sjuklingar-adstandendur/deildir-og-thjonusta/neydarmottaka-fyrir-tholendur-kynferdisofbeldis/
 • Barnavernd Reykjavíkur í síma 411-1111.
 • Gerendur ofbeldis geta leitað til is eða í síma 555-3020.
 • Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs -samskiptaradgjafi.is

Stefna GB byggist á markmiðum og leiðbeiningum í bæklingi gefnum út af ÍSÍ varðandi skilgreiningu og viðbrögð við kynferðislegu ofbeldi, sem GB gerir að sinni stefnu og sínum markmiðum.

Markmið ÍSÍ með útgáfu bæklingsins er  að:

 • Auka meðvitund íþróttafélaga um að kynferðislegt ofbeldi getur átt sér stað á þeim vettvangi eins og öðrum.
 • Hvetja íþróttafélög til umræðna um hvernig hægt sé að fyrirbyggja kynferðisofbeldi.
 • Fræða þjálfara, stjórnendur og sjálfboðaliða um hvað átt sé við þegar talað er um kynferðislega misnotkun.
 • Fræða þjálfara, stjórnendur og sjálfboðaliða um þau lagaskilyrði sem gilda um kynferðisleg samskipti við börn. 

Skilgreining ÍSÍ á kynferðislegu ofbeldi

„Kynferðislegt ofbeldi á börnum og unglingum er þegar fullorðinn einstaklingur fær barn til að sinna sínum kynferðislegu þörfum eða annarra eða misbýður barni með kynferðislegum athöfnum. Í skilgreiningu Barnaverndarstofu kemur fram að kynferðislegt ofbeldi gagnvart barni feli í sér; kynferðislega athöfn gegn barni eða með barni innan 15 ára aldurs með eða án vilja barnsins en einnig; kynferðislega athöfn gagnvart eða með barni 15 ára eða eldra án vilja barnsins.

Einstaklingur sem beitir börn kynferðislegu ofbeldi verður í þessum bæklingi kallaður gerandi. Gerendur finnast í öllum stéttum samfélagsins og löngun þeirra endurspeglast í hugsunum þeirra, hugmyndaflugi og athöfnum. Sumir sætta sig við að þeir hafi kynferðislega löngun til barna eða unglinga og líta á það sem eðlilegan hlut. Þeim finnast óskir sínar og athafnir eðlilegar og að samfélagið geri mistök í fordæmingu sinni á löngunum þeirra og hvötum. Aðrir skammast sín fyrir þessar hvatir og fá sektarkennd og kvíða. Af þeim sökum verða margir þeirra aldrei kynferðislega virkir. Ofbeldið getur verið margslungið allt frá nauðgun og valdbeitingu til velsæmisbrots, kynferðislegrar áreitni með dónalegum athugasemdum og nærgöngulu augnaráði.“ Bækling ÍSÍ má nálgast hér.

Stefna GB í vímuvörnum

Það er mikilvægt að GB sé trúverðugt í fræðslu– og forvarnarstarfi þar sem árangur í íþróttum og áfengis– og tóbaksneysla fer ekki saman.  GB fræðir iðkendur sína, bæði börn og unglinga um skaðsemi vímuefna auk þess að fræða iðkendur um lyfjamál og bendi þeim á þær hættur sem geta fylgt lyfjanotkun.

Forvarnagildi íþrótta

Íþróttahreyfingin gegnir mikilvægu hlutverki í vímuvörnum. Rannsóknir á högum barna og ungmenna sýna að þeim ungmennum reiðir betur af og neyta síður vímuefna sem eru virk í íþróttastarfi. Einnig sýna rannsóknir að neysla vímuefna og tóbaks hafa mjög skaðleg áhrif á árangur í íþróttum. Félagið vill efla enn frekar vímuvarnargildi íþrótta með því að taka skýra afstöðu gegn neyslu í tengslum við íþróttir. Í þessari stefnuyfirlýsingu er talað um vímuefnaneyslu og er þá átt við neyslu áfengis og annarra vímuefna.

Neysla tóbaks og vímuefna

Félagið er andvígt allri neyslu tóbaks og vímuefna allra iðkenda sem æfa hjá félaginu undir handleiðslu þjálfara þess. Öll neysla tóbaks og vímuefna er bönnuð í tengslum við æfingar og keppnir á vegum félagsins. Það sama á við um æfingaferðir á vegum félagsins.

Viðbrögð félagsins við neyslu iðkenda

Félagið mun bregðast sérstaklega við allri neyslu iðkenda undir 18 ára aldri og foreldrar verða undantekningarlaust upplýstir um slíka neyslu. Félagið mun bregðast við vímuefna- og tóbaksneyslu þeirra sem eru sjálfráða. Slíkt er brot á reglum félagsins og hefur auk þess áhrif á ástundun, frammistöðu og ímynd félagsins. Viðbrögð félagsins við brotum á reglum þessum verða í formi tilmæla og ábendinga. Skili slík viðbrögð ekki árangri getur komið til tímabundins banns frá æfingum og/eða keppni. Viðbrögð félagsins munu samt ávallt mótast af vilja til að aðstoða iðkanda við að laga sig að reglum og að hann haldi áfram að starfa innan félagsins.

Hlutverk þjálfara

Þjálfarar skulu vinna eftir vímuvarnastefnu félagsins, þar með talið að bregðast við vímuefnaneyslu iðkenda á viðeigandi hátt. Félagið mun sjá þjálfurum fyrir fræðslu um áhrif vímuefnaneyslu á árangur í íþróttum sem þjálfarar síðan miðla áfram til iðkenda. Þjálfarar skulu framfylgja stefnu félagsins varðandi samstarf við foreldra og aðra aðila sem sinna málefnum barna og unglinga.

Samstarf við foreldra

Félagið upplýsir foreldra um stefnu félagsins í vímuvörnum. Félagið mun standa að góðu samstarfi við foreldra iðkenda með fræðslu um neikvæð áhrif áfengis og annarra vímuefna á árangur í íþróttum, auk fræðslu til foreldra um þjálfun og æskilegt mataræði íþróttafólks. Félagið mun starfa náið með fagfólki í vímuvörnum og hafa samráð við foreldra, þurfi að taka á neysluvandamáli iðkanda undir sjálfræðisaldri.

Stefnuyfirlýsing ÍSÍ um forvarnir og fíkniefni

Neysla áfengis, tóbaks eða fíkniefna á aldrei samleið með iðkun íþrótta og vill íþróttahreyfingin á Íslandi efla forvarnarhlutverk sitt á eftirfarandi hátt:

Setja fram markvissa stefnu

 • Hvetja íþrótta- og ungmennafélög til þess að festa í lög sín ákvæði þar sem tekin er einörð afstaða gegn neyslu á áfengi og fíkniefnum
 • Móta sameiginlegar starfsreglur um hvernig tekið skuli á fíkniefnavanda ungs fólks á vettvangi íþróttahreyfingarinnar og hvernig unnið skuli að forvörnum og gera öll íþróttamannvirki algerlega reyklaus

Stuðla að aukinni og almennari þátttöku ungs fólks í íþróttastarfi

 • Hvetja íþrótta- og ungmennafélög til þess að vinna marvisst að því að fjölga iðkendum íþrótta meðal barna og unglinga, meðal annars með því að auka fjölbreytni í iðkuninni og tryggja þannig að öll börn og unglingar fái tækifæri til þess að stunda íþróttir í samræmi við eigin þarfir, getu og áhuga.
 • Nýta mannvirki og aðstöðu íþróttahreyfingarinnar til þess að festa íþróttastarf í sessi sem raunhæfan valkost til skemmtunar fyrir unglinga, til dæmis með því að bjóða upp á iðkun óhefðbundinna greina.
 • Halda opin hús í íþróttamannvirkjum eða efna til annars konar íþróttastarfs fyrir þessa aldurshópa þar sem meiri áhersla er lögð á að koma til móts við þarfir þeirra fyrir afþreyingu og skemmtun en keppni og afrek.

Auka þekkingu á skaðsemi fíkniefna og forvörnum innan hreyfingarinnar

 • Gefa út fræðsluefni um fíkniefni og forvarnir fyrir þjálfara og iðkendur og gera fræðslu um þessi málefni að föstum þætti í fræðslustarfi íþróttahreyfingarinnar og í íþróttanámi í framhaldsskólum
 • Fela þjálfurum að fræða þá iðkendur sem þeir þjálfa um áhrif áfengis, tóbaks og fíkniefna á heilbrigði þeirra og árangur í íþróttum
 • Hvetja sambandsaðila íþróttahreyfingarinnar til þess að fjalla um fíkniefni og forvarnir í málsgögnum sínum og ritum.