RARIK styrkir skógrækt Golfklúbbs Borgarness um 300.000 krónur.

Golfklúbbur Borgarness Fréttir, Viðburðir

Á 50 ára afmæli RARIK árið 1997 efndi fyrirtækið til átaks sem hét „Tré fyrir staur“. Fyrir hvern rafmagnsstaur í dreifikerfinu skuldbatt fyrirtækið sig að planta trjám. Um 50.000 græðlingum skyldi plantað árið 1997 en eitthvað minna næstu ár.

Hamarsvöllur varð fljótlega eitt af svæðunum sem naut góðs af þessu átaki Rarik. Í upphafi myndaðist góð stemning milli félaga GB og starfsmanna RARIK sem mættu á Hamarsvöll,  plöntuðu trjám, léku golf og borðu grillmat. Myndaðist árleg hefð þar sem starfsmenn RARIK mættu árvisst glaðir og kátir með plönturnar sínar og gróðusettu ásamt félögum í GB. Hélst þessi hefð fram á síðasta áratug en þá fjaraði hún út.  RARIK hefur þó haldið áfram að styrkja skógrækt á Hamarsvelli þótt okkar vallarstarfsmenn planti núna trjánum. Og starfsmenn RARIK mæta enn á Hamarsvöll og leika golf í umhverfi sem þeirra framtak  hjálpaði til að skapa.

Hefur RARIK því styrkt myndarlega  skógræktarstarf GB í tæp 20 ár. Er þeirra framlag ómetanlegt þegar við lítum yfir Hamarsvöll í dag. Að mörgum talinn einn fallegasti golfvöllur landsins að miklu leyti vegna fljölbreytts gróðurfars.

Golfklúbbur Borgarness vill koma á framfæri miklu þakklæti til forstöðumanna og starfsmanna Rarik  í gegnum árin.