Aðalfundur Golfklúbbs Borgarness var haldinn í klúbbhúsinu að Hótel Hamri mánudaginn 17. desember 2018.
Formaður félagins, Ingvi Árnason, fór yfir skýrslu og starf klúbbsins og framkvæmdarstjóri GB , Jóhannes Ármannsson, las upp reikninga klúbbsins fyrir 2017 og skýrði þá.
Í skýrslu formanns (stjórnar) kom fram að þrátt fyrir erfið rekstrarskilyrði og leiðinlegt veður fyrri hluta sumars skartaði Hamarsvöllur sýnu fegursta og var umtalað í hversu góðu ástandi völlurinn var. Á vordögum var farið í viðarmiklar breytingar á vellinum sem fólust í að fyrsti teigur var færður rétt suður af Hótel Hamri og 18. flöt er í nú faðmi hótelsins. Hótelið stækkaði sína veitingaaðstöðu og byggði fallega útikringlu vegna þessa verkefnis. Þessar byggingar voru síðan tengdar 1. teig og 18. flöt með göngustígum, kerrusvæði og golfbílastæðum. Formaður sagði þetta velheppnaða framkvæmd sem lyfti Hamarsvelli upp um nokkar klassa, enda voru móttökur félaga og viðskiptavina frábærar við þessum breytingum. Allir kylfingar vallarins fara nú í gegnum móttökuna á hótelinu. Er Hótel Hamar+GB að reka eina Golf Resort á Íslandi.
Samningar við sveitarfélagið eru alltaf í gangi um fjárhagsaðstoð vegna breytinga á vellinum eða endurnýjun tækja frá því samningur GB og Borgarbyggðar rann út 2016 en hafa ekki skilað árangri og eru fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins til GB NÚLL krónur árið 2018. Þrátt fyrir þau vonbrigði lýsti formaðurinn ánægju með ársreikning klúbbsins og hann sé framar vonum miðað við hvernig sumarið byrjaði. En leiknum hringjum fækkaði um 20% á milli ára vegna slæmrar tíðar og munar um minna fyrir klúbb sem rekur sig að miklu leyti á vallargjöldum.
Framkvæmdarstjóri félagsins sagði að rekstrartekjur GB á árinu voru 39.1 milljónir samanborið við 33.9 milljónir árið 2017. Rekstrargjöld voru 33.6 milljónir samanborið við tæpar 32.2 milljónir árið 2017. Rekstrarafkoma var því jákvæð um 5.5 mkr. og heildartap árins að teknu tilliti til afskrifta og fjármunagjalda var tæpar 0.1 mkr. Nefndi hann að rekstrarkostnaður Hamarsvallar er með lægsta móti sem gerist á 18 holu velli á landinu. Skammtímaskuldir væri ca. 1.700 þús. en því miður væri lausafjárstaðan bág og nokkuð sem halda þyrfti vel utan um.
Í máli framkvæmdastjóra og í kynningu á fjárhags- og rekstraráætlun fyrir árið 2019 kom fram að vallargjöld verði væntanlega stærri póstur á næsta ári með hagstæðari tíðarfari eða eðlilegu árferði. Með breytingunni á vellinum og allri aðstöðu er greinilegt að bæði litlir og stórir hópar, hvort sem á eigin vegum eða í nafni fyrirtækja hafa nú þegar meiri áhuga á þeirri þjónustu sem í boði er á Hamarsvelli/Hótel Hamar.
Gerð er áætlun um hærri tekjum í gegnum félagsgjöld en GB ætlar að aðlaga sína gjaldskrá að gjaldskrám klúbba sem eru að reka 18 holu völl á sömu forsendum og GB, t.d. Leynir. Breyting á félagsgjöldum var lögð fyrir fundinn til samþykktar og fékk samþykki. Gjaldskrá verður birt innan skamms á heimasíðu GB þ.e. gbgolf.is. Einnig var samþykkt að veita þeim sem greitt hafa sitt árgjald fyrir 1. febrúar nk. 10% afslátt.
Rekstrargjöld hækka vegna framkvæmda sem þörf er á í framræsingu og umhirðu á vellinum. Einnig er þörf á uppbyggingu teiga og flata. Umfangið ræðst af því hvort Borgarbyggð kemur eitthvað til móts við GB við þær framkvæmdir á íþróttamannvirkinu.
Stjórn Golfklúbbs Borgness 2018-2019 var kjörin þannig. En hana skipa Guðmundur Daníelsson formaður, Ingvi Árnason, Margrét K. Guðnadóttir, Andri Daði Aðalsteinsson og Magnús Fjeldsted.
Nýr formaður GB var kjörinn til starfa, Guðmundur Daníelsson. Var hann klappaður til dáða. Ingvi Árnason lét af störfum eftir 10 ára samfellda formennsku í klúbbnum. Voru honum þökkuð vel unnin störf. Björgvin Óskar Bjarnason gaf ekki kost á sér í aðalstjórn GB eftir rúmlega aldarfjórðungs setu (næstum samfellt) í stjórn GB.